Innlent

Fannst eftir tveggja mánaða leit í Kerlingafjöllum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Brandur slapp út af heimili sínu fyrir tveimur mánuðum og þrátt fyrir ítrekaða leit eigenda með hjálp dyggra nágranna í Breiðholtinu fannst hvorki tangur né tetur af honum. 

Þar til hann fannst á miðhálendinu - í tæplega tvö hundruð kílómetra fjarlægð frá heimili sínu. Starfsmenn hálendismiðstöðvarinnar í Kerlingafjöllum sáu Brand og auglýstu eftir eigendunum með hjálp Facebook.

„Við fórum og sóttum hann og hann fékk far heim,“ segir Urður Dís Árnadóttir, annar eiganda Brands.

„Hann kom hingað heim, heilsaði okkur og hinum kettinum, fór svo beint í matinn og borðaði og borðaði og vissi hvar allt var. Hann var greinilega feginn að vera kominn heim,“ segir Björn Magnús Björnsson, hinn eigandi Brands.

Urður og Björn halda að Brandur hafi farið undir bíl og fengið far í Kerlingafjöll. „Hann er reyndar mjög hræddur við bíla en hefur líklega flækst óvart með,“ segir Urður.

Brandur er mjög horaður eftir ævintýrið en annars amar ekkert að honum. Dýralæknir setti hann á vítamínkúr til að hann jafni sig fljótt og svo heldur hann sig heima næstu daga til að safna orku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×