Enski boltinn

Titilvörnin hófst með tapi gegn nýliðunum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Titilvörn Leicester byrjaði illa en liðið tapaði nokkuð óvænt fyrsta leik tímabilsins 1-2 gegn nýliðum Hull City í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar.

Flestir áttu eflaust von á því að þetta yrði auðvelt dagsverk fyrir meistaranna gegn liði Hull sem flestir spá neðsta sæti deildarinnar í vor.

Abel Hernandez kom Hull yfir með glæsilegri bakfallsspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og fóru heimamenn inn í hálfleikinn með forskotið.

Besti leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili, Riyad Mahrez, jafnaði á upphafsmínútum seinni hálfleiks af vítapunktinum eftir að Leicester fékk einfaldlega gefins vítaspyrnu frá dómara leiksins.

Það var aftur á móti Robert Snodgrass sem kom Hull aftur yfir skömmu síðar og tryggði Hull um leið stigin þrjú. Féll boltinn fyrir fætur Snodgrass við vítateigslínuna og setti hann boltann í hornið af öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×