Erlent

Stór jarðskjálfti í Japan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Öflugur jarðskjálfti varð í Japan í dag klukkan 01.25 að staðartíma, eða 16.25 að íslenskum tíma, nálægt borginni Kumamoto í suðurhluta landsins, en í gær varð einnig jarðskjálfti á þessu sama svæði þar sem níu létust.

Annar jarðskjálfti, mun minni varð stuttu síðar. Stóri skjálftinn í dag var að stærðinni 7,1 og voru upptök hans á 10 kílómetra dýpi. Gefin var út flóðbylgjuviðvörun en hún síðan afturkölluð.

Ekki liggur fyrir hvort einhver hafi slasast eða látist vegna jarðskjálftans í dag og ekki er heldur ljóst hversu mikil eyðileggingin er. Þó er óttast að fólk sé grafið undir rústum húsa.

Flestir þeirra sem létust í jarðskjálftanum í gær bjuggu í bænum Mashiki í suðvesturhluta Japan en þar hrundi íbúðahús og mörg hús skemmdust. Þá særðust meira en 1000 manns. 4000 manns flúðu heimili sín í kjölfar skjálftans og hafa dvalið utandyra af ótta við eftirskjálfta eins og þann sem varð í dag.

Jarðskjálftar eru tíðir í Japan en jarðskjálftinn sem varð í gær var af stærðinni 6,2. Árið 2011 varð til að mynda stór jarðskjálfti í landinu sem olli flóðbylgju og kjarnorkuslysi í Fukushima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×