Erlent

Bannað að senda SMS og ganga yfir götu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þessi væri að brjóta lög, væri hún stödd í Honolulu.
Þessi væri að brjóta lög, væri hún stödd í Honolulu.
Bannað verður að senda smáskilaboð á meðan gengið er yfir götur í borginni Honolulu á Havaí eftir að ný lög þess efnis taka gildi í október. Lögunum er ætlað að fækka slysum og dauðsföllum af völdum símagláps, en einnig verður bannað að horfa á skjá á öðrum raftækjum á borð við fartölvur og myndavélar.

Þeir sem gerast uppvísir af því að stara niður á símann eiga yfir höfði sér allt að 35 dollara sekt, eða um 3.600 íslenskar krónur. Síbrotamenn geta hins vegar fengið sekt upp á allt að 99 dollara, eða um tíu þúsund krónur. Símtöl til neyðarlínunnar eru undanskilin banninu.

Kirk Caldwell, borgarstjóri Honolulu, undirritaði lögin á fimmtudag, eftir að frumvarpið var samþykkt af meirihluta borgarstjórnar. Frumvarpið kallast Distracted Walking Law, sem vísar til þess hve annars hugar fólk verður þegar það sendir SMS-skilaboð.

Caldwell sagði eftir undirritunina að meira sé um slys af völdum símagláps í Honolulu en nokkurri annarri borg á Havaí. Hann sagðist óska þess að ekki þyrfti að grípa til lagabreytinga, en að ljóst sé að fólki þar í borg skorti almennt hyggjuvit. Því sé aðgerða þörf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×