Innlent

Leiðtogar turnanna í komandi kosningum í Víglínunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Tveir stjórnmálaleiðtogar hafa verið mest í sviðsljósinu í þessari viku og verða þau bæði gestir Heimis Más Péturssonar fréttamanns í Víglínunni á Stöð 2 klukkan 12:20. Þetta eru þau Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins en athyglin á þeim hefur verið af ólíkum toga.

Landsfundur Vinstri grænna hófst í gær þar sem Katrín flutti stefnuræðu flokksins fyrir alþingiskosningarnar eftir þrjár vikur. Flokkurinn hefur verið leiðandi í könnunum allra þeirra sem mæla fylgi flokka undanfarnar vikur og í ræðu sinni í gær hvatti formaðurinn flokksmenn til að halda kraftinum fram að kosningum við að sækja umboð þjóðarinnar til að leiða næstu ríkisstjórn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að tapa fylgi undanfarnar vikur og ef úrslitin verða eitthvað nærri könnunum yrðu þau sögulegt tap fyrir flokkinn. Þá hefur gamall draugur frá hrunárinu 2008 verið vakinn upp að nýju þegar viðskipti Bjarna við Glitni voru sett aftur á dagskrá með úttekt Stundarinnar og The Guardian í gær.

Það yrði einnig sögulegt ef Vinstri græn standa uppi sem stærsti flokkurinn á þingi eftir kosningar. Það yrði í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins sem flokkur lengst til vinstri í stjórnmálum væri í þeirri stöðu og ljóst að allt annað landslag blasti við á Alþingi en ríkt hefur þar frá lýðveldisstofnun.

Víglínan er í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi klukkan 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×