Innlent

Kanna hagsmunaskráningu dómara á Norðurlöndum

Sveinn Arnarsson skrifar
Markmið breytinga á hagsmunaskrá dómara er að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingunum.
Markmið breytinga á hagsmunaskrá dómara er að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingunum. Vísir/stefán
Dómsmálaráðuneytið hefur sent fyrirspurn til dómstóla­ráða hinna Norðurlandanna um hvernig þau hagi hagsmunaskráningum dómara við rétti sína og hvernig þeim skráningum sé komið á framfæri við almenning.

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, sendi þann 12. september umrædda upplýsingabeiðni í fjórum liðum. Spurt er um hvort fjárhagslegir hagsmunir séu skráðir og þá hvaða hagsmunir, hvort um sé að ræða skuldir eða aðrar skuldbindingar. Í annan stað er spurt um hvort eignarhlutir í fyrirtækjum séu skráðir, í þriðja lagi hvort þátttaka dómara í stjórnmálaflokkum eða öðrum félagasamtökum sé skráð.

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra.vísir/ernir
Í fjórða lagi er svo spurt hvort þessar upplýsingar, séu þær á annað borð skráðar, séu gerðar opinberar og aðgengilegar almenningi. „Sérstaklega höfum við áhuga á að vita hvort fjárhagslegar upplýsingar dómara séu birtar á vefsvæði dómstóla og hversu oft þær upplýsingar séu uppfærðar,“ segir í bréfi dómsmálaráðuneytisins til dómstólaráðs Norðmanna.

Sagt var frá því í desember á síðasta ári að Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, hefði átt í umfangsmiklum viðskiptum við Glitni. Hann átti í umfangsmiklum hlutabréfaviðskiptum á árunum fyrir hrun en vék ekki sæti í svokölluðum hrunmálum. Hann var meðal dómara í þremur málum sem voru höfðuð gegn Glitni fyrir hrun en þá var hann hluthafi í bankanum. Málunum var öllum vísað frá. Fjórir dómarar við Hæstarétt áttu fyrir hrun samanlagt 487 þúsund hluti í Glitni og töpuðu þeir umtalsverðum fjárhæðum á falli Glitnis.

Í þingmálaskrá Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra er að finna frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á reglum um skráningu og birtingu upplýsinga um aukastörf dómara og eignarhald á hlutum í félögum og atvinnufyrirtækjum með það að markmiði að auka gegnsæi og aðgengi að upplýsingunum, eins og segir í þingmálaskrá. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×