Innlent

Handtekinn á stolnum bíl með hníf og þýfi í fórum sínum

Þórdís Valsdóttir skrifar
Maðurinn var grunaður  undir akstur undir áhrifum fíkniefna og var auk þess réttindalaust og á stolnum bíl.
Maðurinn var grunaður undir akstur undir áhrifum fíkniefna og var auk þess réttindalaust og á stolnum bíl. vísir/eyþór
Rúmlega tvítugur ökumaður var handtekinn í vikunni af lögreglunni á Suðurnesjum vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Við handtökuna kom í ljós að maðurinn var með hníf í fórum sínum, hann ók einnig sviptur ökuréttindum og bifreiðin sem henn ók var stolin.

Í tösku sem var í stolnu bifreiðinni fann lögreglan kveikjuláslykla að sex bifreiðum sem stolið hafði verið þegar brotist var inn á bifreiðaverkstæði á dögunum.

Lögreglan flutti ökumanninn í annað umdæmi eftir skýrslutöku því lögreglan í því umdæmi þurfti einnig að hafa tal af manninum.

Ók utan í sjö staura á vegriði

Þó nokkur umferðaróhöpp voru í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á dögunum.

Lögreglan stöðvaði ökumann á leið að Keflavíkurflugvelli á all tjónuðum jeppling. Maðurinn kvaðst hafa ekið utan í vegrið á Reykjanesbrautinni á leið til Reykjavíkur og væri á leið aftur að Keflavíkurflugvelli til að skipta um bílaleigubíl.

Við nánari skoðun kom í ljós að ökumaðurinn hafði ekið utan í sjö staura á vegriðinu á 90 til 100 kílómetra hraða.

Einnig varð óhapp þegar ferðamenn höfðu stöðvað bifreið sína úti í kanti á Reykjanesbraut til að skoða GPS staðsetningartæki sitt. Bifreiðin var kyrrstæð og var þá annarri bifreið ekið aftan á hana með þeim afleiðingum að báðar voru þær óökufærar eftir.

Ökumaður og farþegi í kyrrstæðu bifreiðinni voru fluttir til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í kjölfar óhappsins.

130 þúsund króna sekt fyrir of hraðan akstur

Tíu ökumenn hafa verið kærðir af lögreglunni á Suðurnesjum á síðustu dögum fyrir of hraðan akstur.

Sá sem ók hraðast mældist á 150 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Sá ökumaður á von á 130.000 króna sekt fyrir hraðaaksturinn ásamt sviptingu ökuleyfis í einn mánuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×