Erlent

Trump yngri í vörn vegna fundarins með rússneska lögfræðingnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump yngri viðurkennir að hafa hitt rússneska lögfræðinginn en segir að hún hafi ekki haft neinar marktækar upplýsingar undir höndum um Hillary Clinton.
Donald Trump yngri viðurkennir að hafa hitt rússneska lögfræðinginn en segir að hún hafi ekki haft neinar marktækar upplýsingar undir höndum um Hillary Clinton. vísir/getty
Donald Trump yngri, sonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, heldur áfram að svara fyrir sig í kjölfar fregna af fundi hans með rússneska lögfræðingnum Nataliu Veselnitskaya.

Í dag fór hann og samfélagsmiðilinn Twitter, eins og faðir hans gerir oft þegar hann er í vörn, og sagði til að mynda á kaldhæðinn hátt að hann væri auðvitað fyrsta manneskjan í kosningabaráttu sem færi á fund með manneskju sem gæti veitt upplýsingar um pólitískan andstæðing.

Fundur Trump yngri og Veselnitskaya fór fram þann 9. júní í fyrra en auk þeirra voru þeir Jared Kushner, tengdasonur Bandaríkjaforseta, og Paul J Manafort, þáverandi kosningastjóri Trump, á fundinum.

Var Trump yngri lofað skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton, andstæðing föður hans í kapphlaupinu um Hvíta húsið, ef hann myndi mæta á fundinn samkvæmt heimildarmönnum New York Times.

Trump yngri segir hins vegar sjálfur að hann hafi einungis hitt lögfræðinginn til að ræða ættleiðingarstefnu Rússland en árið 2012 ákváðu Rússar að hætta að leyfa Bandaríkjamönnum að ættleiða rússnesk börn.

Engar marktækar upplýsingar um Clinton

Talið er að fundurinn sé sá fyrsti í kosningabaráttunni þar sem nánir samstarfsmenn Trump hittu Rússa en eins og kunnugt er eru meint tengsl Rússa við kosningateymi Bandaríkjaforseta nú til rannsóknar. Þá eru meint afskipti Rússa af forsetakosningunum einnig til rannsóknar.

Í yfirlýsingu sem Trump yngri sendi frá sér í gær sagði hann að eftir að kynning hefði farið fram varðandi ættleiðingarstefnuna hefði Veselnitskaya minnst á Clinton.

„Eftir að kynning hafði átt sér stað, hélt konan því fram að hún hefði upplýsingar undir höndum um tengsl einstaklinga við Rússland sem hefðu fjármagnað Demókrataflokkinn og stutt Clinton.

Fullyrðingar hennar voru óljósar og tvíræðar og hún kom ekki með neinar nákvæmari eða frekari upplýsingar um málið og fljótt varð ljóst að hún hefði engar marktækar upplýsingar undir höndum,“ sagði í yfirlýsingunni.

Veselnitskaya staðfesti frásögn Trump og sagði hún að hún hefði aldrei gengið erinda rússnesku ríkisstjórnarinnar en Veselnitskaya er þekkt baráttukona gegn fyrrnefndum ættleiðingarlögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×