„Hér var fólk bara í rólegheitum að nýta blíðuna í að slá garðinn og skipta um glugga,“ segir Hafrún Ævarsdóttir, meðlimur í björgunarsveitinni Lífsbjörg. Þegar kallið kom á þriðja tímanum var ekkert annað að gera en að hætta í miðju kafi og stökkva af stað.
Vaðan, um fimmtíu dýr að sögn Hafrúnar, var stödd við svæði sem kallast Bug. Björgunarfólkið fór á móti dýrunum og fældi þau á brott með bátum. Þegar dýrin voru komin um sjómílu frá landi fór fólkið aftur í land.

Hvalirnir voru þá á leið inn í höfnina í Rifi. Allt kapp nú var lagt á að forða því að hvalirnir syntu inn í höfnina en pláss þar er lítið og hefði verið vonlaust að koma þeim þaðan.
„Það voru nokkrir komnir upp í fjöru og blessunarlega var fólk á staðnum sem óð upp í mitti til að koma þeim á flot aftur. Það er nefnilega svo að ef einn er kominn á land þá vill restin fylgja,“ segir Hafrún.
Björgunin tók talsverðan tíma því hvalirnir vildu alltaf aftur á land. Því var lítilli gúmmítuðru komið fyrir í hafnarmunnanum til að varna dýrunum inngöngu. Skilið var við hvalina þegar þeir voru komnir um þrjár sjómílur frá landi.
Líkt og áður segir átti sambærilegt atvik sér stað fyrir fjórum árum. Þá var veður vont og lítið hægt að gera. Einhverjum tókst þá meira að segja að synda í gegnum ræsi og enda fyrir ofan þjóðveg. Hvalirnir voru því flestir skornir þegar í fjöruna var komið. Hafrún segir að einhverjir hafi orðið æstir við rekann nú. Ákvörðun var tekin um að koma hvölunum út enda ólöglegt að skera þá.
„Þeir virðast vilja fara áfram út netið. Við Hellissand er lítil höfn sem heitir Krossavík og við erum nokkuð hrædd um að þeir sæki þangað næst. Annars hef ég ekki hugmynd um hví þeir gera þetta,“ segir Hafrún.