
Arndís notaðist við svokallaða faraldsfræði frárennslisvatns sem er aðferðafræði sem notuð er til að meta notkun fíkniefna þar sem litið er á frárennslisvatn sem samansafn þvagsýna frá heilu samfélagi. Með henni er hægt að meta fíkniefnanotkun á fljótvirkari og nákvæmari hátt en með hefðbundnari aðferðum. Rannsóknin hefur staðið yfir í tvö ár í samstarfi við Verkís og Veitur en markmið hennar er að athuga hvort þessi aðferðafræði sé nýtileg hér á landi og hvort hún gæti veitt viðbótarupplýsingar við núverandi aðferðir.
Arndís safnaði sýnum með sjálfvirkum sýnatökubúnaði frá Skerjafjarðarveitu og Sundaveitu og skoðaði hún eina viku um sumarið 2015 og þrjár vikur síðasta vor. Hún framkvæmdi magngreiningu á algengum fíkniefnum ásamt metýlfenídati, sem er virka efnið í Concerta, lyfi sem er notað við ADHD.
Á tímabilunum sem mæld voru sést að amfetamín er mest notaða eiturlyfið í Reykjavík. Kókaín, kannabis og MDMA fylgja þar á eftir. Notkun á amfetamíni, metamfetamíni, kannabisefnum og metýlfenídati var stöðugri yfir vikuna. Arndís segir að Reykjavíkurbúar noti mjög mikið vatn miðað við aðra Evrópubúa sem veldur því að frárennslisvatnið er þynnra og styrkur efnanna er mjög lágur.
„Það sem kom okkur mest á óvart var að öll algengustu fíkniefnin voru vel mælanleg í frárennsli frá Reykjavík. Það sem kom okkur einnig á óvart var að amfetamínneysla er mikil í Reykjavík miðað við lönd í suðurhluta Evrópu en var hins vegar svipuð og í Noregi og Finnlandi,“ segir hún.
Árið 2015 lagði lögreglan í Reykjavík hald á rúmlega sex sinnum meira magn af amfetamíni en árið áður. Um 22,6 kg af amfetamíni voru haldlögð árið 2015 en aðeins um 3,5 kg árið 2014. Samkvæmt bráðabirgðatölum lögreglunnar fyrir árið 2016 var lagt hald á um níu kíló af amfetamíni á síðasta ári, meðal annars fjögur kíló í lok árs sem fjórir menn sátu í gæsluvarðhaldi fyrir.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.