Lífið

Breskur blaðamaður biðlar til Íslendinga í leit að húfu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Godfrey Hall, blaðamaður leitar nú aðstoðar Íslendinga
Godfrey Hall, blaðamaður leitar nú aðstoðar Íslendinga Vísir
Breski blaðamaðurinn Godfrey Hall biðlar nú til Íslendinga í von um að geta nálgast 66° norður húfu sem hann segir að sé orðið að vörumerki sínu.

Í bréfi sem Hall skrifaði til Velvakanda í Morgunblaðinu í dag segir hann að húfuna, sem seld var undir nafninu Katla, hafi hann keypt á ferð sinni til Íslands fyrir nokkrum árum.

Godfrey skrifaði til Velvakanda í von um árangur.
Hall, sem skrifar um ferðir og ferðalög, segir að húfan sé honum mikilvæg enda hafi hún „orðið einskonar vörumerki mitt á ljósmyndum sem teknar hafa verið víða um heim“.

Ekki vildi betur til en svo að húfan týndist á dögunum og þegar Hall ætlaði að fjárfesta í samskonar húfu komst hann að því að hún er ekki lengur í framleiðslu.

Biðlar hann því til Íslendinga sem kunni að hafa samskonar húfu í fórum sínum að athuga hvort að slík húfa geti leynst einhversstaðar í skápum eða skúffum, í von um að fá hana senda.

„Húfan þarf að vera nákvæmlega eins og sú sem myndin sýnir en ekki skiptir máli hvort hún er ný eða notuð,“ skrifar Hall.

Óskar hann eftir því að þeir sem finni slíka húfu og séu tilbúnir til þess að láta hana af hendi hafi samband við sig í gegnum tölvupóstfangið godfrey@godfreyhall.demon.co.uk.

Í fyrstu útgáfu þessarar fréttar stóð að Hall væri bandarískur. Það er rangt, hann er breskur og hefur það nú verið lagfært. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.