Innlent

Hjólaði upp á Hnjúkinn á „fat bike“

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðin upp hjá Símoni og félögum hans tók um ellefu tíma.
Ferðin upp hjá Símoni og félögum hans tók um ellefu tíma. Mynd/Tómas Guðbjartsson
„Þetta vara bara hugdetta. Prófa að gera eitthvað öðruvísi,“ segir Símon Halldórsson stálsmiður sem hjólaði upp á Hvannadalshnjúk á svokölluðu „fat bike“ í gær.

Símon og félagar hans í Björgunarsveit Hafnarfjarðar lögðu af stað frá Sandfelli klukkan eitt, aðfaranótt laugardagsins og tók ferðin upp um ellefu tíma. „Við fórum fótgangandi, á skíðum og svo einn svona skrítinn á hjóli.“ Hann segir að það hafi verið gott útsýni á toppnum og mikið fjölmenni.

„Svo vorum við hátt í fimm tíma á leiðinni niður. Það var mjög skemmtilegt, færið var blautt en ég náði að fara í gegnum þetta á ferðinni. Og í þessu mikla blíðskaparveðri,“ segir Símon sem hefur margoft áður farið á þennan hæsta tind landsins.

En nú eru allir í línu á leiðinni upp. Hvernig gekk það hjá þér?

„Það virkaði ekkert neitt sérlega vel. Ég festi mig við hjólið þannig að ef ég myndi óvænt fara ofan í sprungu þá yrði yfirborðið aðeins stærra. Við erum hins vegar farin að þekkja leiðina mjög vel þannig að á þekktum sprungusvæðum festi ég mig í línu með félögunum og leiddi hjólið. Ég hjólaði því ekki alla leið, enda er það ekkert hægt.“

Símon segir að hann hafi lengi stundað hjólreiðar og þannig hjólaði hann fyrst hringinn í kringum landið átján ára gamall á Hjólreiðahátíðinni miklu 1994, 17. júní. „Það var það fyrsta stóra sem ég gerði á þessu sviði. Síðan hefur þetta undið upp á sig. Maður hefur farið í túra hingað og þangað. Maður hefur alltaf verið í fjallamennsku líka. Þessi hugmynd að hjóla á Hnjúkinn var búin að vera í „hnakkanum“ á mér í smá tíma, að þetta þyrfti að gera. Menn hafa farið á vélsleða, bíl og vélhjólum en þetta var eftir.“

Hjólið sem Símon fór á keypti hann fyrir um einu og hálfu ári. „Ég hef farið á þessu upp á einhver fjöll og svo er þetta fínt líka innanbæjar og í „trailinu“ fyrir utan bæinn.“

Dekkin á hjóli Símonar eru 4,8 tommur að breidd. „Ég er líka með breiðustu gjarðirnar sem eru í boði sem gefa mér allt í lagi flot en menn verða alltaf að velja sér færin. Þetta er jú hjól en ekki skíði.“

En hvað er næst á dagskrá hjá þér?

„Dagskráin er bara opin. Maður er kannski með alls konar skrítnar hugmyndir en ekkert sem er ákveðið. Ég ætla að vinna í sumar og svo er spurning hvað maður geri í haust eða vetur – hvort maður fari eitthvað með hjólið til útlanda. Kannski til Austur-Evrópu, þar finnst mér skemmtilegt að vera. Það verður bara að koma í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×