Flokksmenn í Zanu-PF, stjórnmálaflokki Roberts Mugabe, forseta Simbabve, ætla að ákæra hann fyrir afglöp í embætti forseta. Á meðal þess sem þeir saka Mugabe um er að hafa leyfti eiginkonu sinni, Grace Mugabe, að hrifsa til sín völd.
Tillaga um að ákæra Mugabe verður að öllum líkindum lögð fyrir þingið í Simbabve á morgun en Paul Mangwana, valdamikill maður í Zanu-PF, segir að ákæruferlið þurfi ekki að taka meira en tvo daga.
Mugabe var settur af sem formaður í flokki sínum um helgina og fékk hann frest þar til í dag til að segja af sér sem forseti, en það hefur hann ekki enn gert.
Herinn tók völdin í landinu í Simbabve í liðinni viku eftir að Mugabe rak varaforseta sin, Emmerson Mnangagwa úr embætti. Mnangagwa var talinn líklegur arftaki Mugabe en það var Grace Mugabe einnig talinn og sá margir brottrekstur Mnangagwa í því ljósi að Mugabe vildi að kona sín tæki við forsetaembættinu.
Stjórnarskrá Simbabve kveður á um að ákæra megi embættismenn fyrir afglöp í starfi meðal annars ef þeir brjóta stjórnarskrána eða ef þeim tekst ekki að fylgja stjórnarskránni eða verja hana.
„Aðalhluti ákærunnar snýr að því að hann leyfði eiginkonu sinni að ræna völdum sem kveðið er á um í stjórnarskrá en hún hefur engan rétt til þess að stjórna landinu. Hún móðgar varaforsetann opinberlega og svo sverta þau orðspor hersins,“ er haft eftir Paul Mangwana á vef BBC.
Mugabe hefur verið forseti í 30 ár og hefur verið þrýst mjög á hann að segja af sér. Flestir töldu að hann myndi segja af sér sem forseti þegar hann flutti sjónvarpsávarp í gær en það gerði hann ekki. Mugabe er 93 ára gamall.
„Hann er orðinn mjög gamall og hefur ekki lengur líkamlega getu til að vera við völd. Hann er þrjóskur maður og hann heyrir rödd þjóðarinnar en hann neitar að hlusta,“ segir Mangwana.

