Enski boltinn

Tim Sherwood: Gylfi Sigurðsson er 50 milljón punda virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Sherwood segir það auðvelt að vera stjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar. Hér gefur Gylfi ungum strák eiginhandaráritun.
Tim Sherwood segir það auðvelt að vera stjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar. Hér gefur Gylfi ungum strák eiginhandaráritun. Mynd/KSÍ
Tim Sherwood, fyrrum leikmaður og knattspyrnustjóri Tottenham, fer fögrum orðum um Gylfa Þór Sigurðsson og það kemur honum ekki mikið á óvart að verðmiðinn á íslenska landsliðsmanninum sé kominn upp í 50 milljón pund.

Tim Sherwood þekkir vel til Gylfa en hann var stjóri hans tímabilið 2013-14 þegar Sherwood tók við liðinu af André Villas-Boas í desember 2013. Þeir fóru báðir frá Tottenham eftir það tímabil, Sherwood var rekinn og Gylfi seldur til Swansea.

Tim Sherwood var í viðtali hjá Alan Brazil í þættinum Sports Breakfast og var þá spurður út í verðmiða Gylfa. Talksport segir frá.

„Everton hefur þegar náð í marga menn en það verða engin félagsskipti stærri fyrir félagið en Gylfi Sigurðsson,“ sagði Tim Sherwood.

„Hann hefur mikil áhrif á leikinn þegar hann spilar. Hann er sérfræðingur í föstum leikatriðum sem er öllum liðum gríðarlega mikilvægur hæfileiki,“ sagði Sherwood.

„Hann er frábær leikmaður, virkilega góður leikmaður. Það eru líklega aldrei vandræði með hann og það er auðvelt að vera stjóri hans,“ sagði Sherwood.

„Það verður mjög erfitt fyrir Swansea að halda honum. Ég tel víst að þetta sé komið það langt að félögin nái saman um kaupverð og að hann endi sem leikmaður Everton,“ sagði Sherwood. En er hann 50 milljón punda virði?

„Hann er eins mikils virði og félag er tilbúið að borga fyrir hann. Ég endurtak það samt að hann er mjög góður leikmaður,“ sagði Sherwood.

„Gylfi skorar mörk og hann leggur upp mörk. Hann mun skila Everton-liðinu mörgum stigum. Everton ætlar sér stóra hluti og komast í hóp fjögurra efstu. Til þess þarftu stóran hóp því allir leikmenn geta ekki spilað alla leiki,“ sagði Sherwood.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×