Erlent

35 látnir í sjálfs­vígs­sprengju­á­rás í Bagdad

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin varð í Sadr-hverfinu í austurhluta Bagdad.
Árásin varð í Sadr-hverfinu í austurhluta Bagdad. Vísir/AFP
Að minnsta kosti 35 eru látnir eftir sjálfsvígssprengjuárás á fjölmennu torgi í íröksku höfuðborginni Bagdad.

BBC greinir frá því að auk hinna látnu hafi 61 særst í árásinni sem varð í Sadr-hverfinu í austurhluta borgarinnar, þar sem sjíamúslimar eru í meirihluta.

Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni og segja hana hafa beinst að „samkomustað sjía“, en ISIS-liðar eru að langstærstum hluta súnnímúsimar.

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, segir að árásarmaðurinn hafi þóst vera maður í leit að vinnuafli. Þegar hópur manna hafði safnast saman hjá honum sprengdi hann bíl sem fullur var af sprengiefni.

Að sögn AP voru níu fórnarlambanna konur um borð í lítilli rútu sem átt leið hjá þegar sprengjan sprakk. Þrír lögreglumenn fórust einnig í árásinni.

28 manns fórust þegar tvær sprengjur sprungu á markaði í Bagdad síðastliðinn laugardag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×