Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, vakti athygli á skelfilegu ástandinu í harðorðri færslu á Facebook-síðu sinni í vikunni þar sem hann benti meðal annars á að malarstæðið hefði fengið að standa í nánast óbreyttri mynd frá opnun spítalans fyrir fimmtíu árum. Þá skoraði hann á Dag B. Eggertsson borgarstjóra eða Óttar Proppé heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir því að planið yrði malbikað og stakk upp á að það gæti verið fyrirtaks fimmtugsafmælisgjöf til spítalans.
Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítalans, segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að malarstæðið hafi verið heflað tíu dögum áður en meðfylgjandi mynd var tekin á mánudag.

Fyrir utan þunga umferð sem jafnan er um bílastæðið verður ástand malarstæðisins enn verra í mikilli úrkomu því vatnselgur sem rennur niður götuna Áland við innkeyrsluna að bráðamóttöku Landspítalans endar að stórum hluta inni á malarplaninu.
Fjársvelti Landspítalans er vel þekkt og þar hefur þurft að halda fast í hverja krónu þegar kemur að viðhaldi og framkvæmdum af einhverju tagi.
Aðspurður segir Ingólfur það á forræði spítalans að gera úrbætur á planinu þar sem það sé innan lóðar hans.
„Það er ekki á framkvæmdaáætlun ársins að malbika það.“
Hann segir að kostnaður við lagfæringar líkt og þær sem farið var í á mánudag sé minniháttar. Þær séu gerðar með eigin vélum og mannskap. Kostnaður við að malbika muni án efa nema tugum milljóna.