Innlent

Fjórtán ára bið eftir viðbyggingu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin var tekin í marsmánuði 2003 en þá var fyrirhugað að byggja við hjúkrunarheimilið. Framkvæmdum hefur verið frestað allar götur síðan.
Myndin var tekin í marsmánuði 2003 en þá var fyrirhugað að byggja við hjúkrunarheimilið. Framkvæmdum hefur verið frestað allar götur síðan.
Bygging hjúkrunarheimilis á Hornafirði þokast hægt og er sveitarstjórn farið að lengja eftir svörum frá ríkinu. Fyrsti uppdráttur teikningar liggur fyrir en mótframlag ríkisins skortir.

Á Hornafirði er hjúkrunarheimili með 24 hjúkrunarrýmum en aðeins tvö þeirra eru einbýli. Önnur eru tuttugu fermetra tvíbýli en reglur gera ráð fyrir þrjátíu fermetra einbýlum.

„Frá árinu 2003 höfum við reynt að fá byggingu sem uppfyllir viðmiðunarreglur um aðbúnað á hjúkrunarheimilum,“ segir Lovísa Rósa Bjarnadóttir, forseti bæjarstjórnar. „Það gengur mjög hægt.“

Lovísa segir að gert sé ráð fyrir því að byggingin komi til með að kosta á bilinu 1-1,2 milljarða króna. Þar af er framlag sveitarfélagsins fimmtán prósent. Ríkið komi með 45 prósent að borðinu en hægt sé að sækja um að fá það sem upp á vantar úr framkvæmdasjóði aldraðra.

Núverandi heimili var byggt árið 1996 og átti að vera fyrri áfangi framkvæmdanna. Árið 2003 var frekari framkvæmdum slegið á frest vegna bágrar stöðu ríkissjóðs. Lítil hreyfing hefur verið á málinu síðan þá.

„Við höfum sent inn umsókn til framkvæmdasjóðsins síðustu tvö ár en ekki fengið svör þar sem mótframlag ríkisins er ekki tryggt,“ segir Lovísa. „Við gerum ráð fyrir að gera það áfram til að vekja athygli á stöðunni.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×