Skoðun

#sendustraum

Lovísa Árnadóttir skrifar
Hvernig væri lífið án rafmagns? Í nútíma samfélagi er svarið við þeirri spurningu líklega: Óhugsandi. Við tökum því sem sjálfsögðum hlut á hverjum degi. Langt skammdegið hefur engin áhrif á okkar daglega líf og við njótum þeirra forréttinda að orkan okkar er ódýr og um leið hrein, þar sem nær öll raforkuframleiðsla á Íslandi er með endurnýjanlegum hætti. Stór hluti mannkyns býr við allt annan veruleika.

Alls búa 1,3 milljarðar manna við takmarkað aðgengi að rafmagni. Steinolía er til dæmis aðalorkugjafi heimila í fjölmörgum löndum Afríku. Olían er dýr og gufurnar frá henni eru skaðlegar, sérstaklega börnum. Þrátt fyrir það eiga margar fjölskyldur ekki annan kost eftir að sólin er sest en birtu frá steinolíulampa til að geta athafnað sig við einföld heimilisstörf og börnin við heimanám.

Dagur rafmagnsins hefur verið haldinn hátíðlegur þann 23. janúar á Norðurlöndunum um nokkurra ára skeið. Honum er ætlað að minna á að rafmagn er ekki sjálfgefið og að við gefum því stóra hlutverki sem það spilar í lífi okkar meiri gaum. Um leið er tilvalið að láta gott af sér leiða.

Í tilefni af degi rafmagnsins ætlar SAMORKA, í samstarfi við sænsk-afríska félagið Givewatts, að hjálpa bæjarbúum í Kendu Bay í Kenýa að skipta yfir í endurnýjanlegan orkugjafa, líkt og þá sem við búum við hér á landi, í formi sólarorkulampa. Sólarorkulampinn gefur góða birtu fyrir heimili og skóla og hægt er að nota hann til að hlaða farsíma. Hann gefur kost á betri heilsu, hjálpar börnum að ná markmiðum sínum í námi og ýtir undir hraðari þróun samfélagsins. Að auki leggjum við okkar af mörkum í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum – margt smátt gerir eitt stórt.

Taktu þátt í degi rafmagnsins með okkur. Sendu straum þangað sem þörfin er mest með því að deila mynd af gildi rafmagns í þínu daglega lífi á Facebook/Instagram og merktu hana #sendustraum. Fyrir hverja mynd sem berst leggur SAMORKA 300 kr. til verkefnisins. Markmiðið er að koma yfir 100 sólarorkulömpum til fjölskyldna í Kendu Bay.

Til hamingju öll með dag rafmagnsins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×