Fótbolti

Aberdeen vill fá Kára aftur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason spilaði síðast í Skotlandi fyrir fimm árum.
Kári Árnason spilaði síðast í Skotlandi fyrir fimm árum. vísir/getty
Skoskir fjölmiðlar halda því fram að úrvalsdeildarfélagið Aberdeen sé á höttunum eftir landsliðsmiðverðinum Kára Árnasyni.

Bæði The Scottish Sun og Evening Express segja frá þessu í dag. Sagt er að umboðsmenn Kára séu búnir að láta vita af því að hann sé laus allra mála frá Omonia á Kýpur þar sem hann spilaði fyrr á árinu.

Kári spilaði frábærlega fyrir Aberdeen þegar hann var leikmaður þar frá 2011-2012 en þaðan fór hann og tók þátt í að koma Rotherham upp úr D-deildinni á Englandi og upp í B-deildina. Hann spilaði svo með Malmö í Svíþjóð áður en hann fór til Kýpur.

Derek McInnes, knattspyrnustjóri Aberdeen, er sagður ólmur vilja fá Kára aftur til félagsins en hann var samt ekki stjóri þess þegar Kári spilaði þar fyrir fimm árum síðan.

Kári Árnason verður 35 ára í október en hann hefur verið í atvinnumensku síðan 2004 þegar hann fór frá uppeldisfélagi sínu Víkingi til Djurgården í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×