Erlent

Útkeyrð fyrirsæta á táningsaldri lést á sjúkrahúsi

Atli Ísleifsson skrifar
Ástand Vlada Cziuba versnaði í síðustu viku og lést hún á föstudag.
Ástand Vlada Cziuba versnaði í síðustu viku og lést hún á föstudag.
Fjórtán ára rússnesk fyrirsæta er látin eftir að hafa tekið þátt á tískuvikunni í kínversku borginni Shanghai. Vlada Dziuba var flutt á sjúkrahús síðasta miðvikudag eftir að hún fór að finna fyrir vanlíðan daginn áður eftir um tveggja mánaða vinnutörn í Shanghai. Ástand hennar versnaði svo og lést hún á föstudag.

Örlög Dziuba hafa varpað sjónum manna að starfsskilyrðum fyrirsæta í Kína, en þar starfa fjölmargar ungingsstúlkur frá Rússlandi og öðrum fyrrverandi Sovétlýðveldum.

Siberian Times greinir frá því að Vlada Dziuba hafi verið útkeyrð þegar hún fékk heilahimnubólgu, þó að ónafngreindur heimildarmaður blaðsins innan heilbrigðisgeirans segir að hún kunni að hafa látist af völdum blóðeitrunar.

Forsvarsmenn umboðsskrifstofunnar ESEE Model Management þar sem Dziuba starfaði neita því að hún hafi verið útkeyrð þegar hún lést. Segja þeir að hún hafi fyrst veikst sex dögum eftir að tískuvikunni lauk.

Zheng Yi, framkvæmdastjóri ESEE Model Management, bætir því við að vinnuálag Dziuba hafi síst verið meira en hjá öðrum. Hafi hún verið skráð í sextán verkefni á þeim tveimur mánuðum sem hún dvaldi í Kína og á milli þeirra hafi hún fengið reglubundið frí. Flest verkefnin hafi klárast á innan við átta tímum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×