Erlent

Fimm látnir í óveðrinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Miðborg Hamborgar fór undir vatn.
Miðborg Hamborgar fór undir vatn. Vísir/afp
Mikið óveður hefur gengið yfir mið- og norður Evrópu í gær og í nótt og eru fimm látnir af völdum veðurhamsins. Verst hefur ástandið verið í Þýskalandi, Póllandi og í Tékklandi.

Einn lést í skyndiflóði í Þýskalandi en hinir fjórir létust þegar tré rifnuðu upp með rótum eða brotnuðu og féllu á þá. Á hæsta fjalli Tékklands náði vindhraðinn 180 kílómetra hraða á klukkustund og olli rokið víðtæku rafmagnsleysi.

Þúsundir Pólverja og Tékka er enn án rafmagns og þá flæddi vatn um allan miðbæ Hamborgar í Þýskalandi. Þá strandaði flutningaskip við þýsku eyjuna Langeoog og varð mannbjörg, en yfirvöld fylgjast grannt með stöðu mála þar en um 1800 tonn af olíu eru í skipinu.

Stormurinn Ingolf hefur valdið talsverðu tjóni í Danmörku en lokað var fyrir Stórabeltisbrúna í dag vegna vindstyrks. Þá fór vindhraði upp í 40 metra á sekúndu á Suður-Jótlandi. Vatnshæð náði mest tæpum tveimur metrum í Óðinsvéum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×