Liverpool tapaði fjórum stigum í tveimur leikjum á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni á síðustu fjórum dögum og er ekki lengur meðal fjögurra efstu liðanna í deildinni.
Liverpool gerði 1-1 jafntefli við Everton á sunnudaginn og svo gerði liðið markalaust jafntefli við West Bromwich Albion í gær.
Liverpool mennirnir klikkuðu þó ekki bara á Anfield í vikunni. Divock Origi er í láni hjá þýska liðinu VfL Wolfsburg í vetur og hann átti eitt mesta klúður tímabilsins til þessa í leik á móti RB Leipzig á heimvelli.
Origi skaut þá yfir af markteig fyrir framan opið mark eins og sjá má hér fyrir neðan.
Divock Origi hefur skorað 4 mörk í 14 leikjum með VfL Wolfsburg í þýsku deildinni á þessu tímabli en öll þessi fjögur mörk komu í fyrstu ellefu umferðunum.
Leikurinn á móti RB Leipzig var fimmti deildarleikurinn í röð þar sem Origi náði ekki að skora en hann hefur þó aldrei fengið eins gott færi og í leiknum á móti Leipzig.
Divock Origi hefur skorað 12 mörk í 51 deildarleik með Liverpool en hann skoraði 7 mörk í 34 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.