Innlent

Laun nemenda Vinnuskólans hækka um þrjátíu prósent

Atli Ísleifsson skrifar
Starfstímabil nemenda er frá 12. júní til 31. júlí.
Starfstímabil nemenda er frá 12. júní til 31. júlí. Reykjavíkurborg
Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum í gær að hækka laun nemenda við Vinnuskóla Reykjavíkur um 30 prósent.

Í frétt á vef borgarinnar kemur fram að þegar litið hafi verið til launa nemenda í öðrum sveitarfélögum hafi verið ljóst að Reykjavíkurborg hefði dregist nokkuð aftur úr í samanburði við önnur sveitarfélög.

„Hækkun launa hjá ungmennum fæddum árið 2002 er 139 krónur á tímann eða úr 464 krónum í 603 krónur. Hjá unglingum fæddum 2001 er hækkunin 185 krónur á klukkustund eða úr 617 krónum í 802 krónur á tímann.

Verði aðsókn í skólann með sama hætti og í fyrra mun kostnaðurinn fyrir borgina vera 14,4 milljónir,“ segir í fréttinni.

Þá segir að allir nemendur úr 9. og 10. bekkjum grunnskóla í Reykjavík sem skráðir séu fái vinnu. „Starfstímabil nemenda er frá 12. júní til 31. júlí. Nemendur starfa hálfan daginn og þeim býðst að vinna alls 105 stundir (báðir árgangar). Í fyrra voru 1174 nemendur skráðir í skólann, 735 úr 9. bekk og 439 úr 10. bekk. Stúlkur voru 514 og drengir 660 og með þeim störfuðu um 60 leiðbeinendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×