Innlent

Mótmæla að ráðherra flytji valdið í borgina

Sveinn Arnarsson skrifar
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verður þynnt.
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga verður þynnt. vísir/vilhelm
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga víðsvegar á landinu gagnrýna harðlega lagabreytingar sem fela í sér að eftirlit og verkefni séu færð frá héruðum á landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Lagðar eru fram tillögur um verkefnatilfærslu og breytingar á starfsemi og verksviði heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Útgáfa starfsleyfa færist frá heil­brigðis­eftirlitum um land allt til Umhverfisstofnunar. Þessu mótmæla eftirlitin sem telja þessa þjónustu eiga að vera í nærsamfélagi.

Björt Ólafsdóttir
Skýrsla atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um Matvælastofnun, sem kynnt var þann 27. mars síðastliðinn, frumvarp til laga um Umhverfisstofnun sem nú er í umsagnarferli og frumvarp Bjartar Ólafsdóttur um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir fela í sér tillögur sem breyta starfsemi og verksviði heilbrigðiseftirlita sveitarfélaga.

Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands, segir mikilvægt að sveitarfélögin missi ekki forræði yfir málaflokki sem hefur verið í góðu horfi um árabil. „Á síðustu árum hefur eftirlit færst frá sveitarfélögum til stofnana á höfuðborgarsvæðinu. Við teljum þetta vera þróun í ranga átt.“

Bæjarráð Fjarðabyggðar ályktaði einnig á síðasta fundi sínum gegn breytingunum. Að mati bæjarráðs munu þær veikja hlutverk heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. „Dæmin sanna, svo ekki verður um villst, að margar opinberar stofnanir hafa ekki getu til að sinna eftirliti um land allt. Hér virðist vera á ferðinni barátta um opinbert fjármagn frekar en að tryggð sé góð þjónustu við íbúa og fyrirtæki,“ segir í bókun bæjarráðs.

Sigurjón Þórðarson líffræðingur
Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, segir þessar breytingar veikja mjög eftirlit sveitarfélaga. „Hætt er við því að verði þetta frumvarp að lögum óbreytt veiki það fjárhagslegan grundvöll sveitarfélaga til þess að sinna skyldum sínum við fyrirtæki og stofnanir í nærbyggð.“

Samband sveitarfélaga segir það undrum sæta að frumvarpið hafi verið lagt fram á þingi. Bætt hafi verið inn grundvallarbreytingum í frumvarpið án vitneskju aðila sem áttu aðkomu að gerð frumvarpsins. „Af hálfu sambandsins er því gerður verulegur fyrirvari við ákveðin efnisatriði í frumvarpinu,“ segir í umsögn Sambands sveitarfélaga.


Tengdar fréttir

Kosning Sáda í kvennanefnd SÞ sætir gagnrýni

Sjö lönd sátu hjá og 47 sögðu já þegar kosið var um aðild Sádi-Arabíu að kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna, SÞ. Að sögn sænska utanríkisráðuneytisins er ekki hægt að greiða atkvæði gegn aðild einhvers ríkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×