Innlent

Ari Eldjárn nýr stjórnandi Sinfó

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ari Eldjárn, skemmtikraftur, leiða saman hesta sína í nýju verki sem verður frumsýnt í Hörpu á fimmtudag. Í dag tóku grunnskólanemar forskot á sæluna þegar þeim var boðið að sjá sýninguna en þar fara hljómsveitin og Ari vel út fyrir þægindarammann en ná þó að flétta saman húmor og nokkrum af meistaraverkum tónlistarinnar svo úr verður sannkölluð eðalskemmtun.

Á hverju ári býður Sinfóníuhljómsveit Íslands tæplega fimmtán þúsund nemendum leik,- grunn- og framhaldsskóla á tónleika þar sem starfsemi sinfóníunnar er kynnt. Í dag mættu um þúsund nemendur til þess að fylgjast með sýningunni.

Nemendur úr nokkrum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu fengu frí í tímum í morgun og voru mætt í Hörpuna um klukkan hálf ellefu, en Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur veg og vanda að því að bjóða grunnskólanemunum á sýninguna í dag og á morgun.

„Við erum með uppistand núna í vikunni með Ara Eldjárn og Sinfó. Við byrjum á að halda krakkatónleika. Það koma þrjú til fjögur þúsund krakkar hingað í hús núna í vikunni og svo á fimmtudag, föstudag og laugardag erum við með almenna tónleika,“ segir Margrét Ragnarsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Í nýju verki Sinfóníunar og Ara Eldjárn fléttast húmor og meistaraverk tónlistarinnar saman svo að úr verður sannkölluð eðalskemmtun.

„Þetta er svolítið öðruvísi en ég er vanur að gera. Það er mjög skemmtilegt að vinna með Ara, ég veit aldrei hvað hann ætlar að gera [...] Ég held hann viti ekki sjálfur hvað hann ætlar að gera. Hann er svo spontant,“ segir Bernharður Wilkinsson, stjórnandi Sinfoníuhljómsveitar Íslands.

Fréttastofa Stöðvar 2 leit við á æfingu í morgun, en innslagið má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×