Innlent

Ætla að gera starfslok sveigjanlegri: „Fólk á að geta unnið eins lengi og það kýs“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Félagsmálaráðherra segir ákvæði um starfslok opinberra starfsmana tímaskekkju.
Félagsmálaráðherra segir ákvæði um starfslok opinberra starfsmana tímaskekkju. vísir/ernir
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að vinna sé hafin í ráðuneytinu við að gera starfslok opinberra starfsmanna sveigjanlegri. Lög kveða nú á um að opinberir starfsmenn láti af störfum þegar þeir ná 70 ára aldri.

„Þetta er ákvæði sem er algjör tímaskekkja í dag og engin ástæða til að framlengja lengur,“ sagði Þorsteinn í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Sölvi Tryggvason dagskrárgerðarmaður vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni í vikunni en móðir hans, sem starfar sem kennari fyrir hið opinbera, mun láta af störfum eftir tvær vikur – þegar hún verður sjötug, þrátt fyrir að hafa fullan vilja og getu til þess að halda áfram að vinna. Hann sagði reglurnar úreltar og kallaði eftir lagabreytingu.

Þorsteinn sagðist hjartanlega sammála Sölva. „Fólk á að geta unnið eins lengi og það kýs og getur og drýgt þannig tekjur sínar og notið góðs af ef það vill. Við eigum að ryðja burt þeim hindrunum sem eru í vegi og þar með talið þessi löngu úr sér gengnu ákvæði um að fólk sé þvingað í starfslok þegar tilteknum aldri er náð,“ sagði Þorsteinn.

Aðspurður sagði Þorsteinn vinnu við þessar lagabreytingar ekki þurfa að taka langan tíma. „Við erum að skoða í ráðuneytinu í fyrsta lagi hvernig við getum mögulega dregið úr tekjuskerðingu vegna atvinnutekna á móti lífeyristekjum. Við erum að skoða hvernig við getum aukið sveigjanleika fólks sem vill vinna og hefur getu til að vinna lengur og að það hafi fullt frelsi og njóti afrakstur erfiðisins í þeim efnum. Og síðast en ekki síast að afnema svona úr sér gengin viðmið. Við eigum ekki að mismuna fólki á grundvelli aldurs í þessum efnum.“

Hlusta má á viðtalið við Þorstein Víglundsson í heild í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×