Erlent

Segja yfirvöld í Téténíu stunda skipulagðar pyntingar á samkynhneigðum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Hinsegin fólk á undir högg að sækja í Rússlandi.
Hinsegin fólk á undir högg að sækja í Rússlandi. Vísir/Getty
Samtök hinsegin fólks í Rússlandi telja að rúmlega hundrað samkynhneigðir menn séu nú í haldi yfirvalda í Téténíu og sæti þar pyntingum. Amnesty International hafa fordæmt aðgerðirnar.

Téténía er sjálfstjórnarhérað í Rússlandi. Ramzan Kadyrov, forseti Téténíu, nýtur stuðnings Vladímírs Pútín Rússlandsforseta og hefur í gegnum tíðina verið sakaður um ýmiskonar mannréttindabrot.

Greint var frá því í síðustu viku að um hundrað samkynhneigðir menn hefðu verið handteknir í héraðinu og að þrír þeirra hafi látist. Talsmaður Kadyrov hafnar ásökununum og sagði raunar að samkynhneigð fyrirfinndist ekki í héraðinu.

„Það er ómögulegt að ofsækja þá sem eru ekki til staðar,“ sagði talsmaðurinn.

Natalia Povlevskaya hjá samtökum hinsegin fólks segir að unnið sé að því að flytja fólk á brott og að samtökin séu meðvituð um skipulagðar aðgerðir til að fangelsa samkynhneigða menn í Téténíu.

„Það eru pyntingar að eiga sér stað með raflosti og barsmíðum með köplum. Allir þeir handteknu eru samkynhneigðir menn eða grunaðir um samkynhneigð,“ segir Poplevskaya í samtali við BBC.

Talið er að mennirnir séu í haldi í fangelsi nálægt Argun, um 20 kílómetrum frá borginni Grozny í Téténíu og að rúmlega þrjátíu menn séu látnir vera saman í klefa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×