Erlent

Aðalráðgjafi tyrkneska forsætisráðherrans handtekinn

Binali Yıldırım er forsætisráðherra Tyrklands.
Binali Yıldırım er forsætisráðherra Tyrklands. Vísir/afp
Birol Erdem, aðalráðgjafi tyrkneska forsætisráðherrans Binali Yıldırım, hefur verið handtekinn af tyrknesku lögreglunni vegna gruns um að tengjast hreyfingu predikarans Fethullah Gülen.

Frá þessu greinir ríkisfjölmiðillinn Anatolia sem vísar í heimildir sínar innan embættis ríkissaksóknara þar í landi.

Erdem var ásamt eiginkonu sinni handtekinn af lögreglu í höfuðborginni Ankara fyrr í dag. Hann er einn af æðstu embættismönnunum sem hafa verið handteknir eftir valdaránstilraunina síðasta sumar.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur sakað Gülen um standa að baki hreyfingunni sem stóð fyrir valdaránstilrauninni síðasta sumar. Gülen hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum frá árinu 1999. Hann neitar öllum ásökunum.

Rúmlega 50 þúsund manns hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn á valdaránstilrauninni og hafa rúmlega 100 þúsund opinberir starfsmenn verið látnir taka poka sinn.


Tengdar fréttir

Stjórnvöld í Tyrklandi létu hirða vegabréfið af NBA-stjörnu

Enes Kanter, miðherji Oklahoma City Thunder, lenti í heldur óskemmtilegu atviki á ferðalagi sínu um Evrópu á dögunum er rúmnesk yfirvöld tóku af honum vegabréfið og kröfðust þess að honum yrði haldið á flugvelli í Búkarest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×