Erlent

Norðmaður lést eftir árás býflugna

Atli Ísleifsson skrifar
Um fjögur hundruð metrum frá staðnum þar sem maðurinn fannst eru býflugnabú.
Um fjögur hundruð metrum frá staðnum þar sem maðurinn fannst eru býflugnabú. Vísir/Getty
Sjötíu ára gamall Norðmaður er látinn eftir að hafa verið stunginn ítrekað af býflugum í bænum Mijas á suðurströnd Spánar í fyrradag.

Í frétt NRK segir að maðurinn hafi verið búsettur í Mijas og starfað í norsku kirkjunni í Calahonda. Hann á að hafa verið úti á gangi og fannst síðar látinn við Riviera del Sol af konu sem var úti að viðra hundinn sinn.

Spænska blaðið Sur segir frá því að lögregla hafi komið að líki mannsins þar sem skyrta hans hafi verið yfir andlitinu, að öllum líkindum vegna tilraunar mannsins til að verja sig frá býflugunum. Hann var hins vegar allur þakinn stungum og segja sérfræðingar að eitur í þessu magni geti reynst banvænt.

Um fjögur hundruð metrum frá staðnum þar sem maðurinn fannst er býflugnarækt með heilum 150 búum og telur lögregla að maðurinn hafi farið of nálægt búunum og verið stunginn þegar hann flúði frá staðnum.

Ekki liggur fyrir hvort að eigandi býræktarinnar hafi sett upp viðvörunarskilti líkt og reglur gera ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×