Erlent

Varadkar verður fyrsti samkynhneigði forsætisráðherra Írlands

Atli Ísleifsson skrifar
Leo Varadkar tekur við embætti forsætisráðherra af Enda Kenny sem hefur gegnt embættinu frá árinu 2011.
Leo Varadkar tekur við embætti forsætisráðherra af Enda Kenny sem hefur gegnt embættinu frá árinu 2011. Vísir/afp
Nú er ljóst að Leo Varadkar verður næsti forsætisráðherra Írlands (taoiseach) eftir að hann vann sigur í leiðtogakjöri stjórnarflokksins Fine Gael í gær.

BBC segir frá því að hinn 38 ára Varadkar verði fyrsti samkynhneigði forsætisráðherra landsins og jafnframt sá yngsti til að taka við embættinu. Hann hefur verið ráðherra félagsmála síðasta rúma árið en hefur áður gegnt embætti heilbrigðisráðherra og ráðherraembætti samgöngu-, ferða- og íþróttamála.

Varadkar hafði betur gegn húsnáðismálaráðherranum Simon Coveney í kjörinu þar sem hann fékk um 60 prósent atkvæða.

Varadkar tekur við embætti forsætisráðherra af Enda Kenny sem hefur gegnt embættinu frá árinu 2011.

Hinn 38 ára Varadkar er sonur írsks hjúkrunarfræðings og læknis frá Indlandi og segir í frétt BBC að fjölmiðlaumfjöllun um Varadkar í tengslum við leiðtogakjörið hafi að stærstum hluta snúið að bakgrunni hans, aldri og kynhneigð.

Varadkar kom út úr skápnum í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2015 þar sem Írar greiddu atkvæði um hvort að ætti að heimila hjónabönd samkynhneigðra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×