Enski boltinn

Stóri Sam fær íþróttasálfræðing til að hjálpa Gylfa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, telur að Gylfi Þór Sigurðsson hafi átt erfitt með að ráða við pressuna sem fylgir því að spila fyrir Everton og ætlar að fá íþróttasálfræðing til að hjálpa íslenska landsliðsmanninum að komast í gegnum sína erfiðleika sem og aðra leikmenn liðsins.

Þetta kemur fram í frétt á vef The Guardian þar sem Allardyce tjáir sig um málin en Gylfi varð dýrasti leikmaður Everton í sumar þegar að félagið keypti hann frá Swansea fyrir 45 milljónir punda.

Hann skoraði aðeins sitt þriðja mark fyrir Everton um helgina þegar að Stóri Sam hóf ferilinn á Goodison Park með sigri en Gylfi fór á kostum með Swansea áður en hann var keyptur yfir.

Allardyce telur að Gylfi hafi lent á smá vegg þegar að hann var gerður að dýrasta leikmanni félagsins en hlutirnir gengu heldur ekki alveg upp hjá Gylfa þegar að hann var keyptur til Tottenham á sínum tíma.

„Everton er stórt félag. Ég er ekki að gera lítið úr Swansea en nú er hann að spila á stærra sviði þannig menn verða að vera sterkari andlega og skila sínu inn á vellinum. Það eru gerðar meiri kröfur á leikmenn Everton,“ segir Allardyce.

„Gylfi kom svo seint út af þessari sögu um hvort að Swansea myndi láta hann fara eða ekki. Hann var ekkert að æfa með aðalliðinu á þessum tíma þannig hann var eftir á í undirbúningi.“

Allardyce hefur alltaf verið duglegur að nýta sér sérþekkingu annarra til að hjálpa sér að ná árangri og nú ætlar hann að leita til íþróttasálfræðings vegna slæmrar byrjunar Everton-liðsins.

„Ég ætla að reyna að finna íþróttasálfræðing því ég held að það verði mjög mikilvægt fyrir liðið. Ef menn eru með hausinn í lagi þá geta þeir staðið sig inn á vellinum,“ segir Sam Allardyce.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×