Erlent

Mannfall meðal Rússa sagt hafa aukist í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskur hermaður stendur vörð í Palmyra.
Rússneskur hermaður stendur vörð í Palmyra. Vísir/AFP
Mannfall meðal Rússa er sagt hafa aukist verulega í Sýrlandi á árinu og er þegar orðið hærra en það var allt árið í fyrra. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar fréttaveitunnar Reuters hafa minnst 40 Rússar fallið í Sýrlandi. Yfirvöld í Rússlandi segja hins vegar að einungis tíu hafi fallið.

Reuters ræddi við fjölskyldumeðlimi og vini manna sem hafa fallið eða jafnvel sveitastjórnendur í heimabyggðum þeirra. Tekið er fram í niðurstöðum þeirra að líklega sé raunverulega talan hærri þar sem fjölskyldumeðlimir hafi verið hvattir til þess að tjá sig ekki um dauðsföllin.



Þá viðurkenni yfirvöld Rússlands ekki að verktakar berjist með hernum, en vera þeirra í Sýrlandi gæti brotið gegn lögum um að almennir borgarar megi ekki berjast sem málaliðar í öðrum ríkjum.

Talsmaður Varnarmálaráðuneytis Rússlands segir að um hreinar og beinar lygar sé að ræða. Hins vegar segir hershöfðinginn Igor Konashenkov að tilraunir til þess að skilgreina „einstaklinga sem koma ekki að hernum, né aðgerðum í Sýrlandi“ sem menn sem hafi fallið í bardögum vera rangt.



Það útilokar ekki að um málaliða sé að ræða.

Sömuleiðis sagði Dmitry Peskov, talsmaður Vladimir Putin, forseta Rússlands, að „mögulega“ væru rússneskir ríkisborgarar í Sýrlandi sem sjálfboðar með sýrlenska hernum eða í „öðrum tilgangi“. Þeir hefðu hins vegar ekkert að gera með ríkisstjórnina og Varnarmálaráðuneytið. Hann sagði einnig að ekki kæmi til greina að endurskoða tölur ráðuneytisins. Ekki væri hægt að treysta öðrum tölum en þeim opinberu.



Konashenkov tók einnig fram í yfirlýsingu sinni að ráðuneytið vissi hverjir stæðu að baki útgáfu fréttarinnar og hverjir hefðu aðstoðað við gerð hennar.

Reuters segir tölur um mannfall vera mjög viðkvæmar upplýsingar í Rússlandi, en þremur mánuðum áður en Rússar hófu aðgerðir í Sýrlandi gaf Putin út tilskipun um að upplýsingar um mannfall á friðartímum yrði gert leyndarmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×