Erlent

Norskir rasistar trylltust yfir tómum strætósætum

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndin umrædda.
Myndin umrædda. Facebook
Norskir rasistar urðu fokreiðir á dögunum yfir mynd af tómum sætum í strætó. Myndin var sett á Facebooksíðuna Fedrelandet viktigst, sem gróflega þýtt er „föðurlandið fyrst“, með textanum: „Hvað finnst fólki um þetta?“. Töldu margir að um væri að ræða hóp kvenna í búrkum og þar væri komin sönnunin fyrir íslamsvæðingu Noregs.

Rúmlega þrettán þúsund manns eru inn á síðunni, en myndin hefur farið víða um internetið eftir að skjáskot voru birt af færslunni og viðbrögðum við henni.

„Sorglegt“, „ógnvænlegt“, „sjúkdómur“, „kvennakúgun“ og „ógeðslegt“ voru meðal orða sem meðlimir hópsins notuðu til að tjá tilfinningar sínar um þessi tómu sæti. Aðrir sögðu að „þetta fólk“ muni taka yfir heiminn og gera hann hræðilegan. Þá gáfu einhverjir í skyn að þær hulduverur sem að þau sáu á myndinni gætu borið vopn og sprengjur undir fötum sínum.

Vildi skemmta sér

Sindre Beyer, maðurinn sem tók skjáskotin af umræðunni, sagði í samtali við Nettavisen að hann hefði fylgst með umræddri síðu um langt skeið. Hann segir það koma sér sífellt á óvart hve mikið hatur sé á síðunni og hve oft svokölluðum falsfréttum sé dreift þar.

Einnig var rætt við Johann Slåttvik, sem setti upprunalegu færsluna inn. Hann sagði markmið sitt hafa verið í þremur liðum. Fyrst vildi hann skoða mismuninn á milli blindra fordóma og þar að auki hafi hjarðhegðun vakið áhuga hans. Þriðja markmiðið var að skemmta sér.

Nettavisen ræddi einnig við Rune Bergleund Steen, forsvarsmann andkynþáttahatursstofnunar Noregs. Hún sagði atvikið sýna fram á að fólk sæi það sem það vildi sjá og að þetta fólk hafi viljað sjá hættulega múslima.

Samkvæmt Guardian voru búrkur nýverið bannaðar í skólum í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×