Innlent

Fíkniefnasali handtekinn við hefðbundið eftirlit

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá lögreglustöðinni á Suðurnesjum.
Frá lögreglustöðinni á Suðurnesjum. vísir/vilhelm
Lögreglan á Suðurnesjum handtók í síðustu viku karlmann um þrítugt sem grunaður er um sölu og dreifingu fíkniefna. Upp komst um manninn í hefðbundnu umferðareftirliti lögreglunnar en hann er jafnframt talinn hafa ekið undir áhrifum vímuefna.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að maðurinn hafi kastað þremur fíkniefnapakkningum út úr bílnum þegar honum var gefið merki um að stöðva bíl sinn.

Við leit í bílnum fannst dunkur með kannabisefnum og minnisbækur sem taldar eru innihalda sölu- og skuldalista vegna fíkniefnasölu. Þá fannst umtalsverð fjárhæð í bílnum sem lögregla lagði hald á.

Nokkuð af fíkniefnum til viðbótar, óþekktar töflur, meint þýfi og tæki og tól sem bentu til sölu fíkniefna, fundust á heimili mannsins. Einstaklingur á heimili hans var einnig handtekinn en á honum fundust fíkniefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×