Viðskipti innlent

Kvartanir vegna skilareglna H&M á borði Neytendasamtakanna

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Gera má ráð fyrir fjölda fólks sem vill skila og skipta jólagjöfum í verslunum á næstu dögum en á hverju ári fá Neytendasamtökin fyrirspurnir um skilarétt neytenda.

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir lög um skilarétt ekki skýr heldur leiðbeinandi. 

„Alla jafna hafa neytendur rétt á að skila og skipta vörum. En vandamálið sem við erum að fá inn á okkar borð varðar útsölur í janúar, hvort neytendur hafi þá rétt á upphaflegu verði eða útsöluverði. Samkvæmt leiðbeinandi reglum sem gefnar voru út fyrir margt löngu er reglan sú að neytandi eigi rétt á upphaflegu verði en hægt er að setja skilyrði um að inneignarnótan sé ekki notuð fyrr en útsölu lýkur," segir Brynhildur.

Brynhildur Pétursdóttir, formaður Neytendasamtakanna
Nú þegar hafa Neytendasamtökunum borist kvartanir og fyrirspurnir um skilareglur H&M á Íslandi en þar má ekki skila fylgihlutum sem keyptir eru í versluninni, svo sem hálskrögum, skarti og töskum.

Brynhildi finnst undarlegt að verslunin fylgi ekki leiðbeinandi reglum á Íslandi.

„Þegar verslanir eru með reglur sem eru á skjön við það sem almennt gerist ættu þær að minnsta kosti að auglýsa þær mjög vel. Þannig að viðskiptavinir viti að hverju þeir ganga og komið sé í veg fyrir að pirra viðskiptavinina,“ segir Brynhildur Pétursdóttir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×