Körfubolti

25 ár á milli mynda: Stoltur körfuboltapabbi orðinn stoltur körfuboltaafi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
25 ár liðu á milli þessara mynda.
25 ár liðu á milli þessara mynda. myndir/erna ingvarsdóttir/íþróttablaðið
Ingvar Jónsson er af flestum talinn guðfaðir körfuboltans í Hafnarfirði en þessi öflugi leikmaður og þjálfari var allt í öllu í körfuboltanum hjá Haukum um langt skeið.

Ingvar ól af sér tvo landsliðsmenn; Jón Arnar Ingvarsson og Pétur Ingvarsson, sem báðir voru frábærir leikmenn og síðar þjálfarar.

Synir hans eignuðust svo stráka sem spila báðir í Domino´s-deildinni en þeir mættust í gær. Þetta eru Kári Jónsson, Haukum, og Hilmar Pétursson sem gekk í raðir Keflavíkur í sumar.

Keflvíkingar sóttu sigur á Ásvelli í gær og eru á toppnum í deildinni. Kári Jónsson átti stórleik og skoraði 28 stig auk þess sem hann tók sjö fráköst en Hilmar var stigalaus. Hann gat þó brosað eftir leik enda fóru Keflvíkingar heim með stigin tvö.

Eftir leikinn tók Erna Ingvarsdóttir, dóttir Ingvars Jónssonar, mynd af föður sínum með litlu frændunum og endurskapaði með því mynd sem var tekin af Ingvari með sonum sínum fyrir 25 árum síðan.

Eldri myndin var tekin af Ingvari með Pétri (t.v.) og Jóni Arnari (t.h.) eftir leik í efstu deild árið 1992 en það árið var Ingvar að þjálfa syni sína í meistaraflokki Hauka og endaði liðið í 2. sæti í deildinni. Hún birtist í íþróttablaðinu en viðtalið við þá feðga var tekið af engum öðrum en Þorgrími Þráinssyni.

Haukarnir fóru alla leið í lokaúrslitin þetta tímabilið en töpuðu 3-0 fyrir Keflavík sem var með frábært lið þennan veturinn sem varð einnig deildarmeistari.

Bæði Keflavík og Haukar eru líkleg til afreka í úrslitakeppninni og hver veit nema afi fái annað tækifæri til að láta mynda sig með barnabörnunum.

Pétur Ingvarsson, Ingvar Jónsson og Jón Arnar Ingvarsson árið 1992.mynd/íþróttablaðið
Hilmar Pétursson, Ingvar Jónsson og Kári Jónsson í gær.mynd/erna ingvarsdóttir

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×