Erlent

Bjargað eftir fimm mánuði á Kyrrahafi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Tasha Fuiaba var hæstánægð þegar henni var bjargað af skútunni.
Tasha Fuiaba var hæstánægð þegar henni var bjargað af skútunni. Vísir/Ap
Tveimur konum og tveimur hundum var bjargað, heilum á húfi, af bandaríska flotanum á Kyrrahafi í nótt en þær höfðu verið á reki á skútu sinni í heila fimm mánuði.

Jennifer Appel og Tasha Fuiaba ætluðu að sigla lítilli seglskútu frá Hawaii til Tahiti þegar vélin í bátnum eyðilagðist. Þær ætluðu þá að reiða sig á vindinn og segl bátsins, en höfðu ekki erindi sem erfiði og tveimur mánuðum eftir að þær höfðu gert ráð fyrir því að komast til Tahiti fóru þær að senda út neyðarköll reglulega.

Þá voru þær komnar um 1500 kílómetra undan ströndum Japans á hafsvæði þar sem lítil skipaumferð er og því heyrðust neyðarskeyti þeirra ekki, segir í yfirlýsingu frá bandaríska flotanum.

Tævanskir veiðimenn sáu konurnar loks í vikunni og höfðu samband við flotann og þegar konurnar fundust voru þær og hundarnir við góða heilsu. Þær höfðu mikinn þurrmat meðferðis auk þess sem þær voru með vatnshreinsunartæki um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×