Fótbolti

Southampton-mennirnir áttu heiðurinn af sigurmarki Englendinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nathan Redmond tryggði Englendingum öll stigin þrjú gegn Slóvökum.
Nathan Redmond tryggði Englendingum öll stigin þrjú gegn Slóvökum. vísir/epa
Enska landsliðið skipað leikmönnum 21 árs og yngri kom til baka og vann 1-2 sigur á Slóvakíu í A-riðli Evrópumótsins í Póllandi í dag.

Englendingar voru undir í hálfleik en mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og sneru dæminu sér í vil. England er núna með fjögur stig á toppi riðilsins.

Martin Chrien kom Slóvökum í 1-0 á 23. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik jafnaði Alfie Mawson metin fyrir Englendinga. Mawson er samherji Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea City og skoraði nokkur mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Á 61. mínútu skoraði Nathan Redmond svo sigurmark Englands eftir sendingu frá James Ward-Prowse, samherja sínum hjá Southampton. Lokatölur 1-2, Englandi í vil.

Englendingar mæta Pólverjum í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×