Innlent

Vonbrigði að sjá ekki fleiri konur í stjórnunarstöðum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Félagsmálaráðherra segir það vera mikil vonbrigði að lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja hafi ekki skilað sér í jafnari stöðu kynjanna þegar kemur að formennsku og forstjórastöðum. Félag kvenna í atvinnulífinu boðaði í dag nýtt átak til að taka á þessum vanda.

Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra og Rakel Sveinsdóttir stjórnarkona Félags kvenna í atvinnulífinu hringdu opnunarbjöllu Kauphallarinnar í morgun í tilefni af Alþjóða baráttudegi kvenna sem var haldinn hátíðlegur í dag.

Rakel kynnti ennfremur nýtt átak, Jafnvægisvogina, sem nú er í mótun en átakið hefur meðal annars það markmið að fjölga konum í stjórnunarstöðum og framkvæmdastjórnum fyrirtækja.

„Það er mikilvægt að líta aldrei á svona verkefni, Jafnvægisvogina, sem eitthvað baráttumál kvenna vegna þess að við tölum alltaf út frá fjölbreytni og að virkja konur og karla. Með því að vinna hlutina meira saman þá erum við að virkja mannauðinn og fá það besta fram til að ná sem bestum árangri,“ segir Rakel.

Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja voru samþykkt á Alþingi fyrir sjö árum. Nokkuð hefur áunnist síðan þá að mati félagsmálaráðherra en hlutfall kvenna í stjórnum er nú um 37 prósent.

„En þetta hefur haft sáralítil áhrif á kynjahlutfallið þegar kemur að stjórnarformennsku, forstjóra, æðsta stjórnanda eða framkvæmdastjóra fyrirtækja. Þar erum við ennþá að horfa á svona tíu til fimmtán prósent hlutfall kvenna. Það eru auðvitað mikil vonbrigði að sjá að lög um kynjakvóta hafi enn sem komið er ekki haft nein áhrif þarna,“ segir Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra




Fleiri fréttir

Sjá meira


×