Innlent

Horfir grátandi á afa sinn í algjörri óvissu um framtíðina

Sveinn Arnarsson skrifar
Systurnar Sigrún Elín og Halla Ósk segja það þyngra en tárum taki að afa þeirra og ömmu sé stúkað í sundur síðustu árin.
Systurnar Sigrún Elín og Halla Ósk segja það þyngra en tárum taki að afa þeirra og ömmu sé stúkað í sundur síðustu árin. vísir/gva
Systurnar Halla Ósk Haraldsdóttir og Sigrún Elín Haraldsdóttir segja það mikla byrði fyrir afa þeirra, Ragnar Haraldsson,  að fá ekki vistun á Hrafnistu í Reykjavík á sama tíma og konan hans til fjölda áratuga er komin inn. Hann er einn heima lungann úr deginum og sökum heilsuleysis treystir hann sér ekki til að heimsækja eiginkonu sína nema annan hvern dag.

Ragnar Haraldsson er fæddur árið 1925 en konan hans, Sigrún Einarsdóttir er fædd árið 1929. Þau hafa verið í sambandi frá því árið 1950 eða í 67 ár. Ragnar fékk hvíldarinnlögn á Hrafnistu fyrir nokkru síðan í fjórar vikur. Þegar hann óskaði eftir framlengingu á hvíldarinnlögninni var beiðni hans hafnað af færni- og heilsumatsnefnd.

„Hann afi okkar fær mjög oft svimaköst og hefur hann margoft slasast heima hjá sér við það eitt að standa uppréttur. Hann hefur axlarbrotnað, marist í andliti, rotast svo dæmi séu tekin. Hann fær þjónustu heim til sín tvisvar sinnum á dag en á milli þess er hann einsamall. Það veldur okkur miklum áhyggjum," segir Halla Ósk.

Ragnar vill helst fá að vera hjá eiginkonu sinni síðustu æviár þeirra. Það er hinsvegar ekki möguleiki að mati færni- og heilsumatsnefndar. vísir/GVA
Laura Scheving Thorsteinsson, sviðsstjóra eftirlits og gæða hjá embætti landlæknis, segir öldrunarrými takmörkuð gæði og ef einstaklingar komist inn gæti það verið á kostnað annars. „Það eru allir sammála um að það vill enginn stía í sundur hjónum,“ segir Laura. „Hinsvegar eru dvalar- og hjúkrunarrými fullnýtt í dag og biðlistar fyrir hendi og ef einstaklingur kemur inn með maka sínum gæti hann hugsanlega verið að taka pláss af öðrum sem þyrfti sannarlega á slíku rými að halda.“

Fréttablaðið sagði frá því í síðustu viku að hjón á Akureyri til 65 ára gætu ekki lengur búið saman vegna meints heilsuhreystis annars aðilans. Sama saga er uppi á teningnum hvað varðar föðurforelda þeirra Höllu og Sigrúnar.

„Afi vill auðvitað fá að vera með konunni sinni síðustu æviárin. Það er ómannúðlegt að taka þau í sundur á þennan hátt,“ segir Halla Ósk. „Hinsvegar er það svo að heilsan hans leyfir ekki að hann sé einn heima. Við hjálpum honum mjög mikið á hverjum einasta degi og höfum gert í nokkur ár. þau vilja búa saman en geta það ekki."

Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, segir viðlíka mál hafa komið áður upp og muni koma upp í framtíðinni aftur þar sem hjón fái ekki sameiginlega vist á öldrunarheimili sökum hraustleika annars aðilans. „Stjórnvöld verða að sjá vandann og gera allt sem hægt er til að fjölga öldrunarrýmum í landinu og komast hjá svona málum,“ segir Pétur. „Við á Hrafnistu höfum reynt að hafa íbúðir á leigu fyrir maka einstaklinga nálægt Hrafnistu þannig að við tryggjum að hjón geti verið saman yfir daginn.“

Sigrún Elín segir þessa stöðu valda sér vanlíðan flesta daga. „Ég sit heima grátandi, veit ekki hvernig þetta fer og í hvorn fótinn ég á að stíga og við hvern eigi að tala. Að horfa upp á afa og sjá hann í vanlíðan heima í óvissu um framtíð sína og geta ekki haldið í hönd konu sinnar þegar honum hentar,“ segir Sigrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×