Innlent

Fá hálfa milljón í styrk til að finna vistvæna leið til að halda hundaskít af götunum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hundaeigendur nota jafnan plastpoka til að hreinsa upp skít eftir hunda sína.
Hundaeigendur nota jafnan plastpoka til að hreinsa upp skít eftir hunda sína. Vísir/Getty
Borgarráð hefur samþykkt að tólf verkefni verði styrkt að upphæð 24.9 milljónum króna úr Miðborgarsjóði. Af þeirri upphæð fær eitt verkefni 15 milljónir. Alls bárust 35 umsóknir um styrki úr sjóðnum, samtals að fjárhæð 119 milljón króna. Auglýst var eftir styrkjum frá Miðborgarsjóði í sumar og var umsóknartími frá 15. júní til 5. júlí. Til úthlutunar voru 30 milljónir króna samkvæmt fjárhagsætlun Reykjavíkurborgar.

Verkefnið Skítamix var á meðal þeirra sem fengu úthlutað styrk í ár. Það er nýsköpunarverkefni sem gengur út á að finna vistvæna leið til að halda hundaskít af götum borgarinnar. Hundaeigendur nota jafnan plastpoka til að hreinsa upp skít eftir hunda sína.

Miðborgin okkar fær 15 milljónir

Arkitektafélag Íslands fær tvær milljónir til að gera fimm myndbönd um arkitektúr og þróun bygginga í miðborginni. Myndböndin eiga að fræða, auka samtal og vekja áhuga almennings á arkitektúr og sögu miðborgarinnar.

Verkefnið Miðborgin okkar fær 15 milljónir króna en samtökin hafa stuðlaða að samstarfi rekstraraðila í miðborginni síðastliðin ár og markaðssett miðborgina sem miðstöð mannlífs, menningar, verslunar og þjónustu. Samtökin eru með nálægt 150 meðlimi sem starfa í miðborginni.

Miðbæjarfélagið í Reykjavík fær hálfa milljón króna til rannsóknar fyrir verkefnið Konur í kaupmennsku  og Samtök um bíllausan lífsstíl fá fjögur hundruð þúsund  til að halda málþing um fjölbreytta samgönguhætti. Verkefnið Slökun í borg fær eina milljón króna til að efna til slökunarstunda á mismunandi stöðum í miðborginni á tímabilinu ágúst 2017 fram í ágúst 2018. 

Nánar má lesa um verkefnin á vefsíðu Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×