Fótbolti

Freyr um Söru Björk: Getur náð 200 landsleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í hundraðasta landsleiknum sínum í dag.
Sara Björk Gunnarsdóttir í hundraðasta landsleiknum sínum í dag. Vísir/Getty
Sara Björk Gunnarsdóttir varð í dag yngsti landsliðsleikmaður Ísland í fótbolta frá upphafi sem nær að spila hundrað A-landsleiki.

Sara Björk sem verður ekki 27 ára fyrr en í haust spilaði hundraðasta landsleikinn sinn á móti Japan í Algarve-bikarnum.

Landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson er ánægður með sinn leikmann sem vann sér strax inn stórt hlutverk með íslenska landsliðinu þegar hún kom inn í liðið fyrir alvöru átján  ára gömul.

„Það var frábært fyrir hana. Það er magnað að hún sé að ná þessu 26 ára. Þetta er enginn aldur og eins og ég sagði fyrir leikinn. Ef Sara verður heppin með meiðsli og hugsar svona vel um sig eins og hún gerir þá getur Sara Björk náð 200 landsleikjum á sínum ferli,“ sagði Freyr.

„Það gæti alveg farið þannig. Hún er einstakur íþróttamaður sem hugsar ótrúlega vel um sig. Það er unun fyrir mig að vinna með henni og fyrir liðsfélagana að taka þátt í þessari vegferð með henni,“ sagði Freyr.

„Mér finnst hún vera að bæta sig ár frá ári og hefur allavega verið að gera það síðan að ég byrjaði að vinna með henni. Ég held að það muni halda áfram,“ sagði Freyr.

Rætt verður við Söru Björk Gunnarsdóttur og Frey Alexandersson í Fréttablaðinu á morgun.

Freyr Alexandersson.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×