Erlent

Gleymdu skærum í kviði manns í átján ár

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Skærin voru 15 sentímetra löng og seinast notuð á því herrans ári 1998.
Skærin voru 15 sentímetra löng og seinast notuð á því herrans ári 1998. Vísir/Getty
Víetnamskir læknar hafa fjarlægt skæri sem staðsett voru í kviði manns í 18 ár. Sérfræðingar í skurðlækningum voru fengnir frá höfuðborg landsins til aðstoðar læknunum en aðgerðin fór fram á spítala í norðurhluta landsins. BBC greinir frá.

Maðurinn sem undirgekkst aðgerðina er 54 ára gamall og heimsótti spítala í síðasta mánuði eftir umferðaróhapp. Eftir að hafa undirgengst skoðun gátu læknarnir ekki séð betur á röntgenmyndum en að einhverskonar verkfæri væri staðsett vinstra megin við maga hans.

Frekari skoðanir staðfestu grun lækna og leiddu í ljós að 15 sentímetra skæri væru staðsett rétt hjá ristli mannsins. Aðspurður taldi maðurinn að líklega hefðu skærin verið skilin eftir í kviði hans í aðgerð sem hann fór í árið 1998 eftir að hafa lent í öðru umferðaróhappi. Hann hafði þó ekki tekið eftir neinu í heil 18 ár en nýlega fór hann þó að finna fyrir magaverkjum sem verkjalyf slógu ekki á.

Aðgerðin þar sem skærin voru fjarlægð tók þrjá tíma en læknarnir urðu að fara afar varlega þar sem skærin voru farin að ryðga og þannig höfðu þau fest sig við nærliggjandi líffæri mannsins.

Heilbrigðisyfirvöld í Víetnam hafa kallað eftir upplýsingum um það hvaða læknir gæti hafa skilið eftir skæri í líkama mannsins en talið er ólíklegt að úr því verði skorið þar sem læknaskýrslur eru yfirleitt ekki geymdar lengur heldur en fimmtán ár þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×