Erlent

Danir geta nú tekið bílprófið sautján ára

Atli Ísleifsson skrifar
Sambærilegar reglur tóku gildi í Þýskalandi árið 2008.
Sambærilegar reglur tóku gildi í Þýskalandi árið 2008. Vísir/Getty
Dönsk ungmenni geta nú tekið bílprófið sautján ára, en hin umdeilda lagabreyting tók gildi í dag. Áður þurftu Danir að hafa náð átján ára aldri til að öðlast slík réttindi.

Sautján ára ungmenni hafa þó ekki frítt spil til að halda út á vegina þar sem fyrsta árið verða þau að vera með reynslumikinn bílstjóra, að minnsta kosti þrítugan að aldri, í farþegasætinu.

Hinar nýju reglur eru til reynslu næstu þrjú árin og er vonast til að með þessu verði hægt að efla umferðaröryggi í landinu.

Í frétt Aftonbladet segir að hugmyndin að breytingunni komi frá Þýskalandi þar sem rannsóknir benda til að bílslysum þar sem ungir bílstjórar koma við sögu hefur fækkað um fjórðung frá því að sambærilegar reglur tóku þar gildi 2008.

„Þetta gefur fólki eitthvað aukalega í akstursuppeldinu, að sitja í bíl með foreldri eða einhverjum öðrum fullorðnum í eitt ár,“ segir Ole Birk Olesen, samgönguráðherra Danmerkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×