Innlent

Bandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kviknaði með sms-skilaboðunum „Vaknaður?“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Óttarr Proppé og Benedikt Jóhanesson voru mjög samstíga í stjórnarmyndunarviðræðum.
Óttarr Proppé og Benedikt Jóhanesson voru mjög samstíga í stjórnarmyndunarviðræðum. Vísir/Anton
Bandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í stjórnarmyndunarviðræðum eftir alþingiskosningarnar í haust varð til eftir að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sendi Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar sms-skilaboð að morguninn eftir kjördag.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut þar sem rætt verður við Benedikt, nýskipaðan fjármálaráðherra.

„Það var nú bara þannig að daginn eftir kjördag sendi ég honum fyrst sms, stutt og hnitmiðað: „Vaknaður?“ Hann svaraði um hæl „Á fótum“. Þá hringdi ég í hann og spurði hvort að við ættum ekki að spjalla, hvort að flokkarnir gætu ekki átt samleið, meira en við höfðum átt málefnalega,“ segir Benedikt um skilaboðin.

Flokkarnir voru mjög samstíga í flóknum viðræðum, fyrst við Sjálfstæðisflokk og síðar við Pírata, Samfylkingu og Vinstri græn en tvær atrennur voru gerðar að hvorum viðræðum þangað til að núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var mynduð.

Benedikt segir að Óttarr og hann hafi ekki þekkst fyrirfram en eftir fjölmargar viðkomur í sjónvarpsþáttum fyrir kosningar hafi alltaf betur og betur komið í ljós að flokkarnir væru samstíga í mörgum málum.

„Við þekktumst ekkert fyrirfram nema við höfðum sést svona. Ég held að við höfum ekki talast við fyrr en í fyrsta sinn í sjónvarpsþáttum. Auðvitað heyrði maður betur og betur í kosningabaráttunni að stefnur flokkanna, þar áttu menn mikla samleið,“ segir Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×