Skoðun

Ruglið í Oxfam

Guðmundur Edgarsson skrifar
Oxfam-stofnunin birti á dögunum hina árlegu skýrslu sína um ójöfnuð og fátækt í heiminum. Helsta niðurstaða skýrslunnar er að átta ríkustu menn heims eigi samanlagt meira en helmingur jarðarbúa. Hvað segir það okkur? Nákvæmlega ekkert eins og hér verður rakið.

Hæpnir útreikningar

Fyrst ber að nefna að útreikningar Oxfam byggja á nettóeignum fólks, þ.e. eignum að frádregnum skuldum. Út frá þeim mælikvarða má fá ótal furðulegar niðurstöður, t.d. þá að ef þú átt 250.000 kr. nettó, átt þú meira en helmingur jarðarbúa að meðaltali. Litla dóttir mín varð um daginn ríkari en tveir milljarðar jarðarbúa samanlagt við það eitt að áskotnast tvö þúsund kall í vasapening. Fjölmennur hópur íbúa heimsins á nefnilega engar fjárhagslegar eignir auk þess sem talsverður hópur fólks skuldar mikið. Og þótt áttmenningarnir eigi meira en helmingur mannkyns segir það ekkert um auðæfi þeirra sem hlutfall af heildareignum jarðarbúa. Samkvæmt Forbes er það hlutfall hverfandi lítið svo ástæðulaust er að óttast að Bill Gates og félagar séu á góðri leið með að sölsa allt undir sig.

Lífsgæðajöfnuður eykst

Þá er bagalegt að Oxfam byggir greiningu sína á þeirri mýtu að verðmætasköpun sé fasti, þ.e. að verði einn ríkur, þá verði annar óhjákvæmilega fátækari. Þetta er vitleysa því að jafnaði bæta viðskipti hag allra, sérstaklega í formi aukinna lífsgæða, þótt sumir verði ríkari en aðrir. Sem dæmi eiga flestir þvottavél, bíl og tölvu í dag sem áður fyrr var einungis á færi þeirra efnameiri. Mun fleiri geta nú ferðast til útlanda svo annað dæmi sé tekið. Synd er að Oxfam minnist ekki einu orði á þetta lögmál markaðsfrelsis og gerir lítið með þá staðreynd að sárafátækum í heiminum hefur fækkað verulega undanfarin ár. Engu að síður er það áhyggjuefni að um tíundi hver einstaklingur býr við mikla fátækt en það verður ekki leyst með því að gera hina ríku fátækari heldur hina fátæku ríkari.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×