Skoðun

Pólskukennslu í stað dönskunnar

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar
Pólverjar eru langstærsti minnihlutahópurinn á Íslandi, nærri 40 prósent af öllum innflytjendum, og þeim fer fjölgandi. Innflytjendur eru um 10 prósent á Íslandi í dag. Pólverjar gætu verið orðnir fimm til sex prósent mannfjöldans eftir nokkur ár eða áratugi og það er fínt.

Pólska heyrist oft á Íslandi, það er stundum eina málið sem heyrist á byggingarsvæðum og oft hefur verið erfitt að fá þjónustu á íslensku á veitingastöðum og kaffihúsum. Búast má við að Pólverjar verði áfram langstærsti minnihlutahópurinn hér og að hlutfallið haldi áfram að hækka því ekki er ólíklegt að fólk flytjist til landsins meðan störfin eru næg og íslensk fyrirtæki fara til Póllands til að ná í starfsfólk.

Pólsk börn læra íslensku í leikskólum, grunnskólum og á leiksvæðum í hverfinu sínu. Vonandi læra þau móðurmálið sitt líka því þessi börn alast hér upp og verða pólskumælandi Íslendingar. Þegar ég hlusta á barnabarnið mitt tala íslensku með pólskum áherslum í leik velti ég stundum fyrir mér hvort við Íslendingar ættum ekki að kenna pólsku sem annað, þriðja eða fjórða erlenda tungumálið í grunnskólum eða framhaldsskólum. Það gæti auðveldað samskipti og skilning milli þessara hópa, íslenskumælandi meirihlutans og pólskumælandi minnihlutans.

Þegar ég bjó í Finnlandi á níunda áratugnum var tvítyngið mikið til umræðu. Finnar eru flestir finnskumælandi en sumir þeirra eru sænskumælandi, líklega um fimm prósent. Finnland var öldum saman hluti af sænska konungsríkinu og Svíar fluttust snemma til Finnlands til að setjast þar að. Samkvæmt lögum hafa þessi tvö tungumál því jafna stöðu. Sambúðin hefur ekki verið áreynslulaus en Finnar telja samt mikilvægt að viðhalda stöðu sænsku tungunnar í Finnlandi.

Enginn danskur minnihluti hér

Auðvitað hafa Pólverjar ekki sömu stöðu hér og sænskumælandi yfirstéttin í Finnlandi. En ég velti því samt fyrir mér hvort það sé ekki tímaskekkja að krakkar læri dönsku sem annað erlenda tungumálið í íslensku skólakerfi. Við erum mikið til hætt að tala norðurlandamál í norrænu samstarfi því enskan hefur tekið yfir. Og hér er enginn danskur minnihluti eins og sá sænski í Finnlandi. Ef pólskan verður jafn algeng hér og sænskan í Finnlandi, er þá ekki eðlilegt að við kennum mál stærsta minnihlutahópsins frekar en að kenna dönsku?

Tungumálakunnátta byggir brú. Hún hjálpar okkur að hafa samskipti. Ættum við að bæta við pólsku sem þriðja erlenda tungumálinu í skyldunámi? Eða vali? Ættum við að skipta út dönskunni fyrir pólsku? Eða ætti pólska bara alls ekkert að vera kennd hér á landi? Þetta er eitthvað sem við þyrftum að velta fyrir okkur.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×