Erlent

Segja þúsundir hafa verið tekna af lífi í „sláturhúsinu“

Samúel Karl Ólason skrifar
Gervihnattarmynd af Saydnaya fangelsinu í Sýrlandi.
Gervihnattarmynd af Saydnaya fangelsinu í Sýrlandi. Vísir/AFP
Allt að þrettán þúsund manns, þar af að mestu almennir borgarar, hafa verið teknir af lífi í Saydnaya fangelsinu í Sýrlandi frá september 2011 til desember 2015. Í hverri viku eru sagðar fara fram fjöldaaftökur í fangelsinu, sem gengur undir nafninu „sláturhúsið“.

Mannréttindasamtökin Amnesty International heldur þessu fram í nýrri skýrslu. Þar segja rannsakendur Amnesty að aftökurnar hafi verið samþykktar á hæstu stigum stjórnvalda í Sýrlandi. Rannsakendur ræddu við 84 einstaklinga við gerð skýrslunnar. Þar á meðal eru fyrrverandi fangar, fangaverðir og emættismenn.

Samkvæmt skýrslunni eru 20 til 50 manns hengdir í hverri viku og á áðurnefndu fjögurra ára tímabili hafi fimm til þrettán þúsund verið hengdir. Allflestir borgarar sem hafi stutt uppreisnina gegn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Ríkisstjórn hans hefur neitað því að aflífa eða koma illa fram við fanga í Saydnaya. Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna sögðu þó í fyrra að útlit væri fyrir að tugir þúsunda manna hefði verið í fangelsinsu og að dauðsföll væru mjög algeng.

Amnesty segir samkvæmt Reuters að aftökur eigi sér enn stað og að um stríðsglæp sé að ræða. Samtökin kalla eftir því að Sameinuðu þjóðirnar taki málið til rannsóknar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×