Innlent

"Gríðarlega ánægður og þakklátur“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segist ánægður með niðurstöðu kvöldsins, þrátt fyrir að hún hafi staðið tæpt. Sjómenn samþykktu í kvöld kjarasamning við SFS með ríflega helmingi atkvæða.

„Ég hafði þessa tilfinningu að við myndum klára þetta og ná þessu í gegn núna þegar við skrifuðum undir. Við fengum staðfestingu á því í kvöld og ég er bara gríðarlega ánægður og þakklátur fyrir það að við skyldum hafa náð þessu í gegn,“ segir Jens.

Hann segir þetta líklega marka upphafið að betra samstarfi milli sjómanna og útvegsmanna. „Þetta var tæpt og þetta er náttúrulega búið að vera langt. Ég held að núna sé það verkefni að halda áfram að vinna vel saman, sjómenn og útgerðarmenn, og ég held að þetta sé bara upphafið af því.“

Jens segir að um sé að ræða góðan samning. „Það eru heilmiklar kjarabætur í þessum samningi, ofan á það sem komið var. Þar sem áður var búið að semja um fiskverð og nýsmíðiákvæði, er núna kominn frír fatnaður og frítt fæði. Það er inni breyting á kostnaðarhlutdeildinni, eingreiðsla, þannig að ég held bara að þetta sé mjög góður samningur fyrir sjómenn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×