Erlent

Gengið til kosninga í Ekvador í dag

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ekvadorar ganga í dag til kosninga og hafa kjörstaðir víðast hvar í landinu opnað, þar sem kjósendum gefst kostur á að kjósa sér nýjan forseta, þar sem núverandi forseti landsins, hinn vinstrisinnaði Rafael Correa hyggst ekki bjóða sig fram að nýju. BBC greinir frá.

Líklegastir til þess að sigra í kosningunum eru Lenin Moreno, núverandi varaforseti, og Guillermo Lasso, sem er af hægri væng stjórnmálanna þar í landi. Frambjóðendur þurfa að minnsta kosti 40 prósent atkvæða, til þess að geta sigrað í kosningunum, annars er kosið aftur. Kannanir sýna að líklegt er að kosið verði aftur.

Meðal loforða Lasso eru að lækka skatta og skera niður í rekstri ríkisins og þá hefur hann einnig lofað að henda Julian Assange úr sendiráði Ekvadors í London, þar sem hann hefur dvalið síðastliðin ár til þess að forðast handtöku. Spillingarmál eru talin auka líkurnar á því að Lasso sigri í kosningunum og að mynduð verði ný íhaldsstjórn í Ekvador.

Samkvæmt lögum í landinu þurfa kjósendur að mæta á kjörstað til þess að kjósa og því er búist við því að rúmlega 12 milljón manns muni halda á kjörstað í landinu í dag. Kjörstaðir loka klukkan 17 á ekvadorskum tíma og er búist við því að fyrstu tölur berist klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×